Ekki alast öll börn upp frá bernsku til fullorðinsára án þess að einhverjir hnökrar verði á þeirri vegferð. Þó að öll börn séu einstök og sérstök láta þau stundum í ljósi tilfinningar eða hegðun sem skapa erfiðleika í lífi þeirra sjálfra og þeirra sem eru í kring um þau. Fjölskyldur hafa oft áhyggjur þegar barnið þeirra eða unglingurinn eiga erfitt með að kljást við umhverfi sitt, eru leið, geta ekki sofið, komast í kynni við fíkiefni, eða þeim semur ekki við fjölskylduna eða vini sína.

AACAP (Rannsóknarstofnun um geðsjúkdóma barna og unglinga í Bandaríkjunum) þróaði upplýsingabæklingana til að bjóða nýjar upplýsingar um málefni/vandamál sem hafa áhrif á börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. AACAP býður öllum þessa mikilvægu þjónustu og bæklingana má fjölfalda og dreifa að kostnaðarlausu svo framarlega sem AACAP er getið og ekki er tekið gjald fyrir notkun þeirra.

AACAP hefur gefið út bæklinga fyrir fjölskyldur á ensku og spænsku. Aðrar þýðingar sem eru á heimasíðunni, eru gefnar út af öðrum aðilum þótt þær byggi á frumgögnum AACAP, sem ekki hefur yfirfarið þýðingarnar. Bæklingarnir á íslensku eru gefnir út af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.